Árlegt vorþing meistaranema í þýðingafræði verður haldið föstudaginn 7. apríl nk. kl. 14-16 í stofu A229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Fluttir verða stuttir og fjörugir fyrirlestrar þar sem rýnt verður í þýðingar stakra verka og reynt að meta hver árangurinn hefur verið. Segja má að þýðingar á Óþelló Shakespeares séu í brennidepli, en einnig verður fjallað um þýðingar af íslensku verki á pólsku, ljóðaþýðingar úr spænsku og ensku og verður vafalaust um margt spjallað. Margt skemmtilegt hefur komið í ljós á þessum þingum undanfarin ár og sumt ratað á prent. Allir eru velkomnir að hlýða á og verður haldin örlítil vorgleði á eftir þar sem nemendur í þýðingafræði og gestir þingsins geta spjallað saman yfir léttum veigum og snarli.

Dagskrá:
Nina Elísabet Smieszek: Þankaganga eða Myślobieg eftir Völu Þórsdóttur í þýðingu Agnieszku Nowak á pólsku,

Ingibjörg Þórisdóttir: Óþelló Shakespeares á íslensku eftir Matthías Jochumsson, Helga Hálfdanarson og Hallgrím Helgason

Kristín Þóra Ólafsdóttir: Ljóðið „Masa“ eftir Cesar Vallejo í fjórum mismunandi þýðingum – Þýðendur: Dagur Sigurðarson, Guðbergur Bergsson, Ingibjörg Haraldsdóttir og Jóhann Hjálmarsson, Sólrún Harpa Sveinbjörnsdóttir:

“Og saman með lími þeir tjösluðu mér”: Áhrif karlkyns þýðanda á kvenlæg ljóð Sylviu Plath.

Ingimar Bjarni Sverrisson: Ráðríkur/Bráttríkur í meðferð Hallgríms Helgasonar í þýðingunni á Óþelló eftir Shakespeare.