Um félagið

Bandalag þýðenda og túlka var stofnað 30. september 2004. Bandalagið er fagfélag þýðenda og túlka og tilgangur þess er að vinna að hagsmunum félagsmanna, efla kynningu á starfi þeirra, auka samstarf þeirra, stuðla að endurmenntun og símenntun, koma á samstarfi við sambærileg samtök erlendis og gæta hagsmuna og réttar þýðenda og túlka í samræmi við íslensk lög og alþjóðavenjur.

Félagar geta þeir orðið sem starfa við þýðingar eða túlkun, eru menntaðir þýðingafræðingar eða túlkar ellegar meðlimir í aðildarfélögum bandalagsins. Er það stjórnar að meta umsóknir þeirra sem eru utan þeirra félaga, samkvæmt reglum sem hún setur.

Bandalag þýðenda og túlka er meðlimur í CEATL (Conceil Européen des Associations de Traducteurs Littéraires).

Lög félagsins

Lög félagsins
Samþykkt lög, (3. grein) á aðalfundi 26. maí 2010 og 9. júní 2015. Lög breytt 23.júní 2023.

1. gr. Heiti
Félagið heitir Bandalag þýðenda og túlka. Heimilisfang og varnarþing þess er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur félagsins, sem er fagfélag þýðenda og túlka, er að vinna að hagsmunum félagsmanna, efla kynningu á starfi þeirra, auka samstarf þeirra, stuðla að endurmenntun og símenntun, koma á samstarfi við sambærileg samtök erlendis og gæta hagsmuna og réttar þýðenda og túlka í samræmi við íslensk lög og alþjóðavenjur.

3. gr. Aðild
Félagar geta þeir orðið sem starfað hafa við þýðingar eða túlkun í a.m.k. 3 ár, eru menntaðir þýðingafræðingar eða túlkar ellegar meðlimir í neðangreindum félögum. Er það stjórnar að meta umsóknir þeirra sem eru utan þeirra félaga, samkvæmt reglum sem hún setur.

Blaðamannafélagi Íslands,
Félagi háskólamenntaðra táknmálstúlka,
Félagi löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda
Félagi túlka á Íslandi,
Félagi þýðenda á Stöð 2,
Hagþenki,
Íslenska esperantósambandinu,
Rithöfundasambandi Íslands,
STÍL, félagi tungumálakennara á Íslandi,
Félagi háskólamenntaðra ráðstefnutúlka.

4. gr. Stjórn
Stjórn Bandalags þýðenda og túlka skipa fimm aðalmenn (formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur) og tveir til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi en síðan aðrir stjórnarmenn og skipta þeir með sér verkum. Skal ritari vera staðgengill formanns. Til að stjórnarfundur teljist ákvörðunarbær skulu vera minnst fjórir stjórnarmenn mættir og skulu tillögur teljast fallnar ef atkvæði falla jafnt.
Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár í senn og skal kjósa til skiptis, annað árið formann, tvo stjórnarmenn og varamann og hitt árið tvo stjórnarmenn og varamann.

5. gr. Aðalfundur
Aðalfund Bandalags þýðenda og túlka skal halda árlega, að jafnaði að hausti til, en þó eigi síðar en 1. október..
Á aðalfundi flytur formaður skýrslu um starf félagsins á liðnu ári. Reikningar skulu endurskoðaðir árlega af skoðunarmönnum félagsins og lagðir fyrir aðalfund til samþykktar. Stjórnarkjör skal fara fram á aðalfundi, sbr. 4. gr. Á aðalfundi skal og kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna. Um kosningu í nefndir eða kjör einstaklinga til sérstakra starfa fer eftir ákvörðun fundarstjóra nema tillögur um annan hátt þar á hljóti stuðning fundarins. Nú hljóta tveir menn jafna atkvæðatölu og skal þá hlutkesti ráða.
Tilkynna skal aðalfund skriflega, t.d. í tölvupósti, með minnst þriggja vikna fyrirvara og skal fundurinn samtímis auglýstur á vef félagsins sé slíkur vefur til staðar. Í tilkynningunni skal greina meginefni tillagna stjórnar til lagabreytinga séu þær fyrirhugaðar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar og framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá í fundarboði.

6. gr. Sérstakur félagsfundur
Stjórn skal boða til félagsfundar innan tveggja vikna ef 20% félagsmanna fara fram á það.

7. gr. Úrskurðar- og siðanefnd
Á vegum Bandalags þýðenda og túlka starfar siðanefnd. Í nefndinni skulu vera þrír félagsmenn kosnir á aðalfundi. Nefndin setur félagsmönnum siðareglur sem skal staðfesta á fyrsta aðalfundi. Jafnframt er hlutverk nefndarinnar að setja niður deilur og skera úr um ágreiningsefni sem upp kunna að koma um faglega þætti þýðinga. Þýðendur, túlkar og verkbeiðendur geta vísað málum til nefndarinnar. Skal þá skipuð úrskurðarnefnd sem í sitja einn fulltrúi siðanefndarinnar, einn fulltrúi hagsmunaaðila og einn tilkvaddur sérfróður aðili sem báðir fulltrúar samþykkja.

8. gr. Viðurlög við broti á lögum og reglum félagsins
Öllum félagsmönnum er skylt að hlíta lögum og reglum félagsins. Hafi félagsmaður framið alvarlegt brot á lögum þess eða reglum, valdið því vísvitandi tjóni eða verið metinn vanhæfur af siðanefnd er stjórn heimilt að víkja honum úr félaginu.

9. gr. Heiðursfélagar
Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka hefur heimild til að kjósa heiðursfélaga sem verði ævilangt undanþegnir félagsgjöldum. Þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi til að kjör heiðursfélaga sé lögmætt. Tilnefningar skal senda stjórn félagsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og koma þær því aðeins til álita að stjórnin sé þeim meðmælt.

10. gr. Félagsgjöld
Félagsgjöld skulu ákveðin af félagsmönnum á aðalfundi. Þeir félagsmenn einir, sem skuldlausir eru við félagið, skulu hafa atkvæðisrétt á fundinum. Greiði félagsmaður árgjald sitt ekki þrjú ár samfleytt telst hann hafa sagt sig úr félaginu. Þó skal gefa félagsmanni kost á að greiða ógreidd gjöld áður en hann er felldur brott af félagaskrá.

11. gr. Lagabreytingar
Breytingar á lögum Bandalags þýðenda og túlka verða ekki gerðar nema á lögmætum aðalfundi og þó því aðeins að 2/3 fundarmanna samþykki breytingarnar. Allar tillögur um lagabreytingar, svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal undir atkvæði á aðalfundi, skulu boðaðar í dagskrá fundarins, sbr. 5. gr.

12. gr. Rekstrarafgangur
Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang þess.

13. gr. Slit félagsins
Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (2/3 hlutum atkvæða). Skulu eignir þess, ef einhverjar eru, renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

14. gr. Gildistaka
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á framhaldsstofnfundi í Reykjavík 12. október 2004.

 

Stjórn

Formaður: Guðrún C. Emilsdóttir
(garunc (hjá) mi.is).
Gjaldkeri:
Ritari: Birna Imsland
(birna (hjá) tulkun.is).

Meðstjórnendur og varamenn:
Katrín Harðardóttir
(netfang: katrin.hardardottir (hjá) gmail.com).
Jóhann R. Kristjánsson
(netfang: capricorn (hjá) simnet.is).
Ingibjörg Þórisdóttir
(netfang: ingibjorg.thorisdottir (hjá) gmail.com).
Björgvin R. Andersen
(netfang: bjorgvin.r.andersen (hjá) gmail.com).
Hrefna María Eiríksdóttir
(netfang: hrefnamaria@gmail.com).

Heiðursfélagar

Kristján Árnason (f. 1934) var skipaður heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka árið 2013. Hann er skáld og fræðimaður og var lengi dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Kristján er þó ekki sist þekktur fyrir þýðingar sínar úr þýsku og forngrísku og hlaut bæði Íslensku þýðingaverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir stórvirkið Ummyndanir eftir Óvídus árið 2010, en fátítt er að þýðandi hljóti menningarverðlaun í bókmenntum.
Kristján hefur einnig skrifað fjölda ritgerða um bókmenntir, þýðingarlist og heimspeki og var hluti þeirra gefinn út í afmælisritinu Hið fagra er satt sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2004.

Sigurður A. Magnússon (f. 1928) var skipaður heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka árið 2005. Hann hefur um langt árabil verið ötull þýðandi, bæði á og af íslensku. Hann hefur kynnt íslensk verk fyrir öðrum þjóðum og undanfarna tvo áratugi hefur hann verið sérlega afkastamikill og metnaðarfullur þýðandi á íslensku. Sigurður hefur einkum þýtt úr dönsku, þýsku, ensku og grísku og þá gjarnan verk höfuðskálda bókmenntasögunnar. Meðal höfunda sem hann hefur íslenskað má nefna H. C. Andersen, Walt Whitman, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, John Fowles, Kazuo Ishiguro, Nagib Mahfúz og Ernest Hemingway, en hæst rísa trúlega stórmerkar þýðingar hans á verkum Írans James Joyce, einkum þýðing hans á Ulysses, sem nefnist Ódysseifur á íslensku og kom út hjá Máli og menningu 1992.