Ávarp Gauta Kristmannssonar formanns

Bandalag þýðenda og túlka hefur starfað í rúm tvö ár þegar þessi vefur er opnaður, en það var stofnað á alþjóðlegum degi þýðenda, 30. sept. 2004 með hátíðlegri athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Bandalagið hefur það að markmiði að auka veg og virðingu þýðenda og túlka í þjóðfélaginu, en þeir starfa nú á æ fleiri sviðum þess og tryggja sem snurðulausast samband okkar við umheiminn innan lands sem utan. Félagar geta orðið þeir sem starfa að þýðingum og túlkun í þeim félögum sem tilgreind eru í lögunum og reyndar voru tvö félög stofnuð um sama leyti Bandalagið, Félag túlka og Félag atvinnuþýðenda, með það fyrir augum að geta verið undir regnhlíf Bandalagsins. Önnur félög sem aðild eiga að Bandalaginu eru Félag löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Esperantosambandið, Félag háskólamenntaðra táknmálstúlka, Hagþenkir, Félag þýðenda á Stöð 2 og Félag Sjónvarpsþýðenda.

Heimildamynd

Bandalagið stóð þegar fyrir gerð stuttrar heimildamyndar fyrir sjónvarp sem sýnd var þ. 17. júní 2005 í Sjónvarpinu. Myndina gerði Þorsteinn J. af glæsibrag og voru þar fróðleg viðtöl við félagsmenn af nokkrum sviðum auk mynda frá stofnfundi þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir hélt opnunarræðu og Jóhanna Þráinsdóttir heitin erindi um þýðingastarfið og var það síðar birt í tímariti þýðenda Jóni á Bægisá.

Þýðingahlaðborð fyrir jólin

Einnig hefur félagið staðið fyrir árlegu Þýðingahlaðborði fyrir jól þar sem bókmenntaþýðendur lesa úr nýutkomnum þýðingum sínum. Þar hafa margir góðir þýðendur stigið á stokk og lesið úr verkum sínum og auk þess hafa verið fyrirlestrar í tengslum við hlaðborðið.

Námskeið

Einnig hefur Bandalagið sinnt námskeiðahaldi fyrir félaga sína í notkun þýðingaminna og orðabókargerð.

Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalagið stóð fyrir því að veita hin Íslensku þýðingaverðlaun árin 2005 og 2006 og hafa þau haft mikil og góð áhrif til kynningar á þýðingum og starfi þýðenda. Verðlaunaféð kom frá Félagi bókaútgefenda og Rithöfundasambandi Íslands og hefur forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhent þau á Gljúfrasteini við hátíðlega athöfn á degi bókarinnar og afmælisdegi Nóbelsskáldsins og þýðandans Halldórs Laxness.

Vefurinn

Vefur þessi er tilraun til að skapa nýjan samstarfsvettvang túlka og þýðenda og inniheldur bæði fréttir, pistla, ágrip um þá félaga sem það vilja auk annarra upplýsinga sem snerta félagsmenn. Hvetjum við alla til að taka þátt í að gera vefinn sem glæsilegastan.