Sigurður A. Magnússon, rithöfundur, skáld og þýðandi, ritstjóri, blaðamaður og gagnrýnandi, lést 2. apríl 2017. Sigurður setti sitt mark á íslenskan bókmenntaheim með frumsömdum verkum en ekki síður þýðingunum sem hann færði íslenskum lesendum og hann var stofnfélagi og heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka frá 2005.

Sigurður var fæddur árið 1928 og átti um margt erfiða æsku og uppvöxt sem hann sagði síðar frá í endurminningabókum sínum. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948 las hann guðfræði, grísku, trúarbragðasögu og bókmenntir, fyrst við Háskóla Íslands en síðar í háskólum í Kaupmannahöfn, Aþenu, Stokkhólmi og New York. Að námi loknu fékkst hann við kennslu en sneri sér fljótlega að blaðamennsku og varð fyrst ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og síðar Samvinnunnar. Eftir hann liggja fjölmargar greinar um menningu og þjóðfélagsmál.

Sigurður A. Magnússon var mikill eldhugi með sterka réttlætiskennd og var mjög virkur í félagsmálum. Hann var óþreytandi í baráttu sinni fyrir réttindum og bættum kjörum rithöfunda og þýðenda og fékk miklu áorkað í þeim efnum, sem verður seint fullþakkað.

Fyrsta bókin sem Sigurður sendi frá sér var Grískir reisudagar árið 1953, en Grikklandsástin fylgdi honum alla tíð og hann var stofnfélagi í Grikklandsvinafélaginu Hellas, fyrsti formaður þess og heiðursfélagi. Grikkland kom einnig við sögu í fleiri ritum hans, bæði frumsömdum og þýddum, en Sigurður sendi frá sér ljóðabækur, skáldsögur, ferðasögur, leikrit, ævisögur, greinasöfn og fræðslurit. Fyrsta bókin í endurminningaröð hans, Undir kalstjörnu, er mörgum minnisstæð og vakti talsverða athygli og umtal, hlaut Menningarverðlaun DV og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Sigurður hlaut ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir ritstörf, m.a. evrópsku Jean Monnet bókmenntaverðlaunin og gullkross grísku Fönixorðunnar, skki síst vegna þýðinga sinna.

Auk annarra ritstarfa var Sigurður A. Magnússon afkastamikill þýðandi og hans verður ef til vill ekki síst minnst fyrir vandaðar þýðingar á erlendum bókmenntum á íslensku, meðal annars á verkum H. C. Andersen, Walt Whitman, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, John Fowles, Kazuo Ishiguro, Nagib Mahfúz og Ernest Hemingway, en afbragðsgóð þýðing hans á Snjórinn á Kilimanjaró Hemingways var tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Eftirminnilegust af þýðingum Sigurðar er þó ef til vill stórvirkið Ódysseifur, mögnuð þýðing á hinni torþýddu bók Ulysses eftir James Joyce.

Sigurður þýddi einnig fjölmörg ljóð, einkum úr ensku, dönsku, þýsku og grísku, sem hefðu varla ratað til íslenskra lesenda nema fyrir tilstilli hans, enda mörg komin langt að. Úrval þeirra kom út í bókinni Með öðrum orðum (1995), en margar aðrar ljóðaþýðingar Sigurðar hafa birst á öðrum vettvangi.

Merkur og fjölhæfur bókmenntamaður er fallinn í valinn. Bandalag þýðenda og túlka þakkar Sigurði A. Magnússyni samfylgdina og sendir ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Sjá einnig:
Gauti Kristmannsson ræðir um Sigurð A. Magnússon: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/vidsja/20170404 (mín.34:48)
Sigurður A. Magnússon, “Frá höfundi” á bókmenntir.is: http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3900/6556_read-18354/rskra-105RSkra-105