Í dag er Dagur bókarinnar og óskum við öllum er koma að þýðingum, skrifum, útgáfu, sölu og lestri bóka innilega til hamingju með daginn! Í tilefni dagsins opnum við formlega nýju heimasíðuna okkar og birtum yfirlýsingu sem lesin var upp á Gljúfrasteini þegar Íslensku þýðingaverðlaunin voru afhent 22. febrúar sl.
Gervigreind og þýðingar
– yfirlýsing frá Bandalagi þýðenda og túlka
Líkt og menningargeirinn eiga bókmennta- og skjáþýðingar undir högg að sækja vegna örrar þróunar í vélþýðingum sem byggja á gervigreind og ógna störfum þýðenda og gæðum þýðinga. Vélþýðingar og gervigreind geta nýst fólki í sínu daglega amstri en þegar kemur að bókmenntaþýðingum, skjáþýðingum og sköpun vilja þýðendur ekki að gervigreind verði raunhæfur valkostur.
Við viljum vara við notkun gervigreindar í okkar starfsgrein og almennt á sviði menningar- og hugverka.
Við teljum að notkun gervigreindar við þýðingar og skrif
- skapi hættu á að örtungumálið okkar verði einsleitara og einhæfara.
- verði til þess að þýðingar verði vélrænar og gæði þeirra mun verri.
- muni aldrei ná þeim hughrifum sem mannlegur hugur býr yfir, svo sem tilbrigðum, tilfinningum og innsæi, atriðum sem gefa textanum líf og gera sögu áhugaverða.
- leiði til lakari kjara fyrir þýðendur og rithöfunda.
- setji höfundarréttarmál í uppnám.
Þess vegna skorum við á
- bókmenntaþýðendur að hafna notkun gervigreindar sem tæki við þýðingar.
- útgefendur að tiltaka á skýran og sýnilega hátt ef notast hefur verið við gervigreind við gerð þeirra ritverka sem gefin eru út á þeirra vegum. Að auki hvetjum við útgefendur til að tiltaka í samningum sínum að ekki skuli notast við gervigreind við þýðingar og skrif og að ekki sé leyfilegt að mata gervigreindina með þeim texta sem samningur er gerður um.
- opinbera aðila að veita ekki styrki til verka sem eru unnin að hluta til eða öllu leyti með aðstoð gervigreindar.
- alla höfunda hugverka að hafna hvers kyns notkun gervigreindar í sköpunarferlinu.
- almenning sem les bækur, horfir á kvikmyndir og metur verkin sem við sköpum að styðja okkur með því að hunsa þau verk sem hafa orðið til með hjálp gervigreindar.
Reykjavík, 22. febrúar 2025
€