Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka harma sorglegar niðurstöður PISA-prófanna þar sem lesskilningur hrapar enn meðal skólabarna og hratt dregur sundur milli pilta og stúlkna. Menn hafa borið fyrir sig áhrif frá ensku í gegnum tölvuleiki og annað efni ætlað börnum og unglingum sem þau hafa greiðan aðgang að. Það er þó ljóst að þessi áhrif væru sýnu minni ef mun meira væri til af þýddu og frumsömdu barnaefni fyrir alla miðla. Einnig hefur á undanförnum árum verið búið afar illa að skólabókasöfnum sem hafa víða verið í langvarandi svelti hjá fátækum sveitarfélögum. Stórauka þarf innkaup á lesefni fyrir börn og unglinga til skóla- og héraðsbókasafna.
Umfjöllun undanfarið um ástand læsis meðal skólabarna hefur varpað ljósi á það hve illa ráðamenn búa að íslenskum börnum og Menntamálastofnun er þar ekki undanskilin. Öflug útgáfa á þýddu og frumsömdu fræðslu- og kennsluefni fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum er mikilvæg fyrir fámenna þjóð til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.
RSÍ og ÞOT skora á stjórnvöld að setja á fót margþætta neyðaráætlun foreldra, skólastofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, menningarstofnana, sveitarfélaga og stjórnvalda með forsætisráðuneyti og forsetaembætti í fylkingarbrjósti. Í þessa neyðaráætlun þarf að leggja fjármagn sem er ekki táknrænt heldur raunverulegt og sýnilegt. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka telja að einungis með öflugu átaki og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda sé hægt að sporna við þessari nöturlegu þróun og bjarga íslenskri tungu frá niðurlægingu og úreldingu sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ef ekki er spyrnt við fótum. Við minnum á góðan árangur Norðmanna sem hafa sérstakan innkaupasjóð til að tryggja að allir íbúar hafi greiðan aðgang að nægu og fjölbreyttu nýju lesefni á bókasöfnum um allt land. Bækur þurfa ekki einasta að vera mun aðgengilegri fyrir börn og unglinga á skóla- og almenningsbókasöfnum með öflugri innkaupum, heldur þurfa þær að vera skattfrjálsar. Ný ríkisstjórn þarf að afnema virðisaukaskatt af bókum hið allra fyrsta og sýna þannig í verki að lesefni sé nauðsynjavara sem á að vera öllum aðgengileg, óháð efnahag.
Íslensk tunga á undir högg að sækja. Hér á landi er fjöldinn allur af fagfólki, þar á meðal rithöfundar, þýðendur og útgefendur, sem er reiðubúið að leggjast á árar með yfirvöldum til að bæta ástandið. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka lýsa sig fús til að vera væntanlegri ríkisstjórn innan handar við verkefni sem gætu skilað góðum árangri. Læsi er höfuðverkfæri mennskunnar, grunnurinn að samfélagslegum skilningi og á að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum á öllum tímum.