Í tilefni af Híerónýmusardeginum, alþjóðlegum degi þýðenda og túlka, stendur Bandalag þýðenda og túlka fyrir afmælisdagskrá í Hannesarholti 30. september kl. 18-20. Þetta er árviss atburður í starfi félagsins sem var stofnað á þessum degi árið 2004.
Margir af þekktustu rithöfundum okkar fyrr og síðar hafa lagt stund á þýðingar meðfram ritstörfum og úr bókmenntasögunni eigum við einnig dæmi um að þýðendur hafi snúið sér að ritstörfum. En hver eru tengslin þarna á milli? Hefur persónulegur stíll og nálgun rithöfundarins áhrif á verk hans sem þýðanda og berst eitthvað inn í frumsamin verk hans frá höfundunum og textanum sem hann hefur þýtt?
Bandalag þýðenda og túlka hefur fengið til liðs við sig fjóra rithöfunda sem allir hafa lagt stund á þýðingar af ýmsu tagi og einnig verður lesið úr óútkominni þýðingu Ólafar Eldjárn, sem lést fyrir skemmstu.
Dagskrá:
1. Magnea J. Matthíasdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, býður gesti velkomna
2. Þórarinn Eldjárn les úr þýðingu Ólafar Eldjárn á Heimför eftir Yaa Gyasi
3. Auður Haralds: „Stæssda orð í heimi“
4. Gerður Kristný: „Íslensku allt!“
5. Eiríkur Örn Norðdahl: „Þýðandinn sem skuldugur höfundur, þýðandinn sem svikull höfundur“
6. Gyrðir Elíasson ræðir við áheyrendur um þýðingar og skáldskap
Á eftir formlegri dagskrá verður almennt spjall og boðið upp á léttar veitingar.
Aðgangseyrir er enginn og allt áhugafólk um þýðingar, túlkun og bókmenntir er hjartanlega velkomið meðan húsrúm leyfir.